top of page

Dæmi um útfærslur

Í forsögn að rammaskipulagi er unnið með svæðið í grófum skala vegna stærðar og umfangs, en nánari útfærslur verða skilgreindar í rammaskipulagi svæðisins. Hér eru þó tekin fyrir tvö tilraunasvæði á Ásbrú og þau rannsökuð með meiri nákvæmni, út frá þeim skipulagsáherslum sem lýst er hér að framan. Þar eru lögð drög að mögulegum útfærslum sem tilraun til að kanna mögleika og tækifæri þegar kemur að næstu stigum uppbyggingar.

Tilraunasvæði

Svæðin sem valið var að gera tilraunir með er annarsvegar fyrirhugað hjarta svæðisins við Andrews Theater og hinsvegar íbúðarsvæði við Valallarbraut. Rétt er að hnykkja á því að aðeins er um tilraun að ræða sem þarf að þróa áfram við gerð rammaskipulagsins fyrir Ásbrú.

Hjarta Ásbrúar 

Hjarta svæðisins var valið út frá staðsetningu sem tengipunktur við önnur mikilvæg svæði. Einnig mótar svæðið aðkomuna þegar komið er að Ásbrú og er í dag samkomustaður í hugum fólks þar sem Sporthúsið er mikið sótt og Andrew’s Theater er menningarhús. Gamlar byggingar frá tímum hersins skapa sterk sögutengsl og sérkenni í byggðinni sem styrkir staðaranda miðsvæðis. 

Miðsvæðis er gert ráð fyrir meiri þéttleika og litlum íbúðum til þess að skapa mannlíf, sem er forsenda fyrir því að miðkjarninn virki. Grænn gangur teygir sig upp frá almenningsgarðinum sunnan megin við svæðið, skapar tengingu í gegnum miðsvæðið og skapar grænt yfirbragð almenningssvæðanna. Líflegt anddyri Andrew’s Theater opnast út á aðkomutorg sem leiðir að öruggri tengingu yfir að Sporthúsinu.

2019-06-12 10_24_15-Photos.png

Viðsnúningur við Valhallarbraut 

Svæðið við Valhallarbraut og Suðurbraut er brothætt í dag út af einhæfri húsa- og íbúðargerð sem skilar sér einnig í einhæfri samfélagsgerð. Gatnakerfi er illa læsilegt vegna fjölda botnlanga. Stór bílastæði snúa að götunni og framhliðar húsanna snúa að bílastæðunum sem veldur því að göturýmið er óafmarkað og skýra götumynd vantar. 

Hér er lögð áhersla á að skapa göturými með því að þétta byggð meðfram götum. Ákveðinn viðsnúningur á sér stað þar sem gatnakerfið er gert samhangandi og skilvirkara með því að tengja saman botnlanga og  bílastæðum á milli núverandi húsa er breytt í götur. Við þá breytingu snúa framhliðar húsanna að götunni og skapa vel afmarkað göturými sem veitir umlykingu. Stór bílastæði eru brotin upp og þeim komið fyrir meðfram götum, inn á milli húsa og í sameiginlegum innri görðum. Inn á milli húsanna og í innri görðum skapast minni skjólgóð græn svæði og örugg leiksvæði þar sem foreldrar geta fylgst með börnum að leik. 

Daemi um utfaerslu.PNG
bottom of page